Jafnræði

Baráttusíða fyrir jafnræði lífsskoðunarfélaga - túarlegra sem veraldlegra

Kristnitaka árið 1000 og jarðeignasöfnun

Hér á landi ríkti kristin kirkja einráð í 874 ár eða þar til að trúfrelsi var lögbundið með fyrstu stjórnarskránni 1874. Kirkjan innheimti fljótlega tíund eftir kristnitökuna árið 1000 og eignaðist 1/3 af jarðeignum landsins á fyrstu 2-3 öldum yfirráða sinna yfir trúarlífi landsmanna. Leiguliðar greiddu henni svo fyrir afnot jarða og prestar nutu góðs af jarðhlunnindum. Þjóðin öll hefur því greitt til hennar tíund og fleiri gjöld öldum saman og því má leiða að því sterk rök um að þjóðin eigi tilkall til þessa kirkjusögulega arfs. Í fyrstu áttu afkomendur goðorðanna kirkjurnar en þær voru teknar af þeim og færðar til kirkjunnar með skipun konungs. Við siðaskiptin á 16. öld vöru klaustrin arðrænd af danska kónginum en almenningur fékk ekki að njóta góðs af neinu af því. Síðan gekk hér í garð galdrahræðsla, ofsóknir og fjöldi aftaka á 17. öld sem kirkjan stóð að mestu fyrir, sérstaklega á Vestfjörðum.

Þróun þéttbýlis og veraldarhyggju

Þjóðkirkjan hafði æ minna við jarðeignir utan prestssetra að gera þegar fólkið streymdi úr sveit í bæi í byrjun 20. aldarinnar. Árið 1907 samdi Þjóðkirkjan við ríkið á afar hagstæðan máta fyrir hana þannig að prestar, prófastar, biskupar og biskupsstofa fengi laun fyrir þessar óhagstæðu jarðeignir. Sá samningur var endurgerður árið 1997. Á öldinni voru einnig stofnaðir digrir sjóðir í vörslu ríkisisins til að styðja við kirkjuþing og byggingar kirkjunnar ásamt ýmsu öðru.

Sóknargjaldakerfið

Þjóðkirkjan rukkaði sín eigin félagsgjöld (sóknargjöld) en þegar líða tók á öldina fór innheimta þeirra að ganga illa þannig að árið 1987 var sett með lögum á fót kerfi sem tryggði Þjóðkirkjunni og (merkilegt nokk) öðrum skráðum trúfélögum ákveðna mánaðarlega upphæð (sóknargjald) fyrir hvern félaga 16 ára og eldri. Breytti engu þar um hvort að hluti félaga gæti ekki greitt tekjuskatt. Þessi tenging við ríkið þýddi því í raun að um ríkisútgjöld væri að ræða tengdum fjölda félaga. Ríkið borgar félagagjaldið. Gengið var þannig frá kerfinu að ríkið héldi skráningu yfir félaga gegnum Þjóðskrá og nýburar yrðu skráðir strax í trúfélag móður. Þannig var allt frumkvæði tekið úr höndunum á fólki og hið sjálfgefna var aðild, en breyting á skráningu kostaði ferð á Þjóðskrá. (Þessari sjálfkrafa skráningu í trúfélag móður var breytt með lögum 2013 þannig að sjálfvirk skráning á við einungis ef bæði kynin eru í sama félaginu. Þannig var jafnrétti kynjanna leiðrétt en áfram brotið á rétti sumra barna til að vera utan félaga þar til að það hefur aldur til að skrá sig sjálft.)

Fækkun í Þjóðkirkjunni

Þjóðkirkjan (Þk) tryggði sér með þessum samningum áframhaldandi yfirburðarstöðu en upp úr 1990 tók að úrsögnum að fjölga mikið hjá henni. Árið 1998 voru 89.9% skráðra í Þk, árið 2005 voru 85.4%, árið 2012 voru 76.8% og 2015 er hlutfallið 73.8% Þjóðkirkjan er ekki lengur þessi nánast eini stólpi í lífsskoðunum á landinu og ljóst er að fólk leitar annað í auknum mæli, sérstaklega yngri kynslóðin. Þessu flæði fjármuna til Þjóðkirkjunnar árlega þarf því að dreifa þannig að allir njóti, en ekki hún ein. Fjölgun utan trúfélaga. Á sama tíma hefur þeim sem eru utan trúfélaga eða ótilgreindir fjölgað úr 3.35% árið 1998 í 10.8% árið 2012 og 12.7% árið 2015. Allt þetta fólk nýtur hvorki sóknargjalda né annarra greiðslna frá ríkinu og frá 2009 var ákveðið með lagabreytingu að reiknuð sóknargjöld þess gengju ekki lengur til Háskóla Íslands.

Trúlaus lífsskoðunarfélög ná jafnræði 2013

Í lok janúar 2013 urðu tímamót. Eftir langa baráttu fengu húmanistar það í gegn með stuðningi þáverandi ríkisstjórnarflokka að veraldleg lífsskoðunarfélög fengu sömu réttindi og trúfélög samkvæmt lögum. Staða Þjóðkirkjunnar var lítt breytt. Sjálfkrafa skráningum ungbarna var hætt nema þegar báðir foreldrar voru í sama félagi. Ekkert breyttist við hina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012. Í villandi spurningu þar sem spurt var hvor að kjósandinn "vilji hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskránni" játuðu því rétt rúmur meirihluti þeirra sem svöruðu. Þjóðkirkjan hafði rætt um að jafnræðisákvæði í ætt við það sem sett var fram í Noregi gæti komið í íslensku stjórnarskrána en það var fljótgleymt eftir þessa atkvæðagreiðslu.

---

Yfirlýsing fjögurra félaga 17. janúar 2013

Ásatrúarfélagið, Siðmennt - félag siðrænna húmanista, Búddistasamtökin SGI á Íslandi og Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar, gáfu út yfirlýsingu með birtingu fjögurra dálka fræðsluauglýsingar um þetta réttlætismál. Yfirlýsingin kom eftir um 3 mánaða þreifingar með öllum trúfélögum sem Ásatrúarfélagið og Siðmennt gat náð í og bauð að vera með í yfirlýsingunni. Í fyrstu var mikill áhugi og forvitni um málið á meðal margra félaga og var Fríkirkjan í Reykjavík nokkuð lengi með í undirbúningnum. Hins vegar kom það óvænt í ljós að stjórn Fríkirkjunnar í Reykjavík (FRVK) vildi í raun ekki gagnrýna þjóðkirkjufyrirkomulagið á þann hátt sem hún hafði látið í veðri vaka til fjölda ára, meðal annars með þáttöku í SARK (Samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju). FRVK vildi gerast þjóðkirkja sjálf með hinni stóru evangelísk-lúthersku kirkju og sækja þannig jafnræði sitt upp á við í stað þess að þjóðkirkjuskipan yrði lögð af. Vísaði hún því til stuðnings að í stjórnarskránni stæði að það væri hin lúthersk-evangelíska kirkja sem skyldi vernda og FRVK væri jú af þeim meiði og því hlyti hún að geta fengið þau réttindi. Fulltrúar Ásatrúarfélagsins og Siðmenntar voru agndofa yfir þessu og FRVK helltist því úr lestinni. Hún vildi í raun ekki gagnrýna stöðu Þk heldur bara kvarta yfir sinni eigin. Í kjölfarið datt Fríkirkjan í Hafnarfirði einnig úr hópnum og þrátt fyrir að nokkrir kristnir söfnuðir vildu greinilega vera með og mótmæla ójafnræðinu urðu aðrir hagsmunir ofaná og allir hættu við. Eftir stóð að eins konar ótti við að vagga stærsta vígi kristninnar var kröfunni um jafnræði yfirsterkari. Meira að segja hin "róttæka" Fríkirkja í Reykjavík átti sér þá bara þjóðkirkjudraum í raun. Þannig stóð það.

Logn næstu ára 2013-2015

Frá því að Siðmennt fékk lögskráningu í maí 2013 hefur lítið gerst í þessum jafnræðismálum. Það fækkar áfram í Þk og Siðmennt og Ásatrúarfélagið stækka, auk þeirra sem skrá sig utan félaga. Athöfnum (nafngjöfum og giftingum) fjölgar mikið hjá Siðmennt og félagið hefur hamrað á því í auglýsingum og tilkynningum að fullur aðskilnaður ríkis og kirkju sé áfram markmiðið þó að það njóti sóknargjalda nú. Þk hefur barist fyrir því að fá sóknargjöldin hækkuð á ný eftir lækkun yfir hrunárin og orðið eitthvað ágengt. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokkins og Framsóknarflokksins styður þjóðkirkjufyrirkomulagið en áfram eru "púlsar" Capacent að sýna stuðning þjóðarinnar við aðskilnað. Ákveðin þreyta var komin deilurnar sem voru hve mestar frá 2005-2012 og eftir að kennari í guðfræðideild HÍ vann ákveðinn fjölmiðlasigur á kæru Vantrúar til Siðanefndar HÍ gagnvart honum, dró meira úr baráttunni. Á netinu hefur félagið Aðgerðir fyrir Aðskilnaði Ríkis og Kirkju (AARK) haft nokkra virkni á Fésbókinni en lítið út fyrir það. Ásatrúarfélagið stendur í byggingu síns fyrsta hofs í hlíðum Öskjuhlíðar og Siðmennt eflir grunnstarfsemi sína og stendur fyrir ýmissi umræðu um siðferðismál.

Borgaraflokkurinn og svo Píratar

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður fór fram á að ráðuneytið gæfi Alþingi upplýsingar um "jarðamálið" m.a. hvar afsöl lægju fyrir um að ríkið ætti nú jarðirnar sem Þk átti að hafa selt því. Engin afsöl hafa fundist og ekki er ljóst hvort að fullnægjandi svör fengust við fyrirspurnum hennar. Allt bendir til að Þk hafi fengið að tvíselja* ríkinu jarðir (utan prestsetursjarða) (1907 og 1997) og fengið þannig eins konar eilífðar uppihald og áframhaldandi tilvist sérstakra dekurákvæða í lögum til að halda í valdatengsl sín við löggjafann eins og t.d. tillögurétt um lög um Þk. Píratar hafa í stjórnarandstöðu ekki gefið afslátt af sínum kröfum til mannréttinda í bæði þessu máli og öðrum. Það og vösk framganga þeirra fáu þingmanna hefur aflað þeim mikils fylgis í skoðanakönnunum og voru komnir með 35% fylgi á sumarmánuðum 2015. Það er pólitískt gott fyrir aðskilnaðarkröfuna en hvort að þetta fylgi haldi þegar til kosninga kemur árið 2017 er óvíst.


Fótmálsútskýringar 1

*Í gangi eru aðrar túlkanir á meðal ýmissa talsmanna þjóðkirkjunnar um samninginn 1907. Vilja þeir meina að ríkið hafi fengið jarðirnar til afnota en ekki eignar. Ríkið virðist þó ekki hafa skilið það þannig og seldi m.a. nokkrar þessara eigna á tímabilinu fram til 1997.

Fótmálsútskýringar 2

.....