Hugleiðingar um útfærslu aðskilnaðar og jafnræðis trú- og lífsskoðunarfélaga

Mál aðskilnaðar og jafnræðis er stórt úrlausnarefni sem þjóðin þarf að sættast á um

Framtíðarskipan tengsla ríkis við trúfélög og lífsskoðunarfélög.

Það hefur lengi einkennt "aðskilnaðar-málið" að það hefur verið erfitt að finna sameiginlega fleti sem stefnumið því að skoðanir félaga og einstaklinga hafa verið skiptar. Segja má þó að um eftirfarandi hafi menn verið almennt sammála um:

 • Að það eigi að vera jafnræði í meðferð ríkisins gagnvart trúfélögum og lífsskoðunarfélögum

 • Að það eigi að skilja að sérstök laga- og fjárhagstengsl einnar kirkju og leggja þannig niður þjóðkirkjuskipan/ríkiskirkjuskipan*

Í stærra samhengi má einnig að fjalla um það hversu mikil úthlutun ríkisins til þessa málaflokks (þá aðallega vegna Þjóðkirkjunnar) á að vera meðal annars í samanburði við úthlutun til heilbrigðismála og menntamála. Ábyrg forgangsröðun hlýtur að vera grundvallaratriði í góðri fjármálastýringu ríkissjóðs. Nægir eru skattarnir þó að þeim sé ekki illa ráðstafað að auki.

Hvað þarf að ákveða?

Á ríkið að hafa einhver eða engin afskipti af trúfélögum og lífsskoðunarfélögum (skammstafað T&L hér eftir)?

Taka þarf afstöðu til hluta eins og:

 • Hlutverk T&L við útfarir fólks

 • Hlutverk T&L við giftingar, bæði löggering og siðfræðilegt innihald

 • Hlutverk í félagslegri og persónulegri skoðun á gildum lífsins og ýmis aðstoð og stuðningur við einstaklinga og fjölskyldur

 • Hlutverki við að skapa umræðuvettvang um siðferðileg málefni í þjóðfélaginu

Þetta má taka saman í eftirfarandi spurningu:

 • Veita T&L gildandi innlegg í þjóðfélagið í máli, starfi og athöfnum sínum þannig að réttlætanlegt og við hæfi sé að ríkið styðji með einhverjum hætti við starfsemi þeirra?

Ef að svarið er þá þarf að ákveða á hvaða hátt og hversu mikill þessi stuðningur ríkisins á að vera.

Sé hins vegar svarið Nei er spurning hvernig eigi að fara að því að slíta þessi tengsl alfarið (aðskilnaður ríkis og kirkju).


Tengslamöguleikinn - hvernig á að úfæra hann?

Ef að að lýðræðislega er komist að þeirri niðurstöðu að við halda tengslum ríkisins við T&L, þá er fyrst spurt:

 • Hvaða skilyrði eiga félögin að uppfylla til þess að eiga rétt á því að fá þennan stuðning frá ríkinu?

Síðan er spurt:

 • Hver á stuðningur ríkisins að vera?

Ef að það á að gæta jafnræðis þarf að afnema þjóðkirkjuskipan með því að:

 • Alþingi samþykki niðurfellingu ákvæðis í stjórnarskrá um þjóðkirkju

 • Kosningar til Alþingis fari fram ásamt þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurfellingu þjóðkirkjuákvæðiðsins sem þarf þá að fá meirihluta atvæða

 • Nýtt þing eftir kosningarnar þarf að samþykkja niðurfellingu ákvæðisins

 • Loks þarf að breyta "lögum um Þjóðkirkju Íslands" (fella þau niður) og rjúfa "jarðasamninginn" frá 1997 og fella niður laun og greiðslur í sérstaka sjóði kirkjunnar

Hér eru nokkrar mögulegar leiðir eftir niðurfellingu þjóðkirkjuskipunar:

 • Afar lítil tengsl T&L við ríkið: það styrki fyrir hverja útför sem fer fram með þjónustu aðila frá T&L.

 • A) Sóknargjaldakerfi - sama sóknargjaldakerfi haldið áfram frá því sem hefur verið (16 ára og eldri)

 • B) Sóknargjaldakerfi - greiðslur á hvern 18 ára og eldri sem greiðir tekjuskatt?

 • C) Sóknargjaldakerfi - greiðslur á hvern 18 ára og eldri sem greiðir yfir X þús. kr. í tekjuskatt?

 • Sóknargjaldakerfi A, B eða C og rekstrarsjóður X% ofan á sóknargjöld?

 • Sóknargjaldakerfi A, B eða C og rekstrarsjóður X% og laun 1 starfsmanns fyrir hverja X þús. meðlimi?

 • Taka afstöðu til gjafalóða, undanþágu VSK og undanþágu fasteignagjalda

Hvernig á að dreifa framleggi ríkisins á milli T&L sem standast kröfur?


Slitamöguleikinn - hvernig á að útfæra hann?

Á sama máta og hér er lýst fyrir ofan um niðurfellingu þjóðkirkjuskipunar

Síðan þarf að fella niður sóknargjaldakerfið (afnám laga þar um) og skráningu fólks í T&L hjá Þjóðskrá. Félögin sæju um öll sín mál sjálf. Skattfríðindi og gjafalóðir felldar út

Annað kerfi?

Það er mörgu ósvarað en umræðan þarf að hefjast og á þá á þessum nótum eða öðrum skipulögðum forsendum og skoðun mála


Fótmálstexti

*Almennt hafa öll trúfélög og lífsskoðunarfélög utan Þjóðkirkjunnar verið sammála því að slíta eigi á þjóðkirkjuskipanina vegna ójöfnuðar en upp úr lokum árs 2012 kom það í ljós að Fríkirkjan í Reykjavík vildi ná jöfnuði upp á við, það er að verða sjálf talin til þjóðkirkju og fá sömu fríðindi og hin stóra evangelísk-lútherska kristna kirkja. Þá kom það einnig í ljós að þó að flest félögin vildu aðskilnað voru þau ekki tilbúin að gefa út opinbera yfirlýsingu um það í samfloti með ekki-kristnum félögum eða jafnvel yfir höfuð ekki.

Neðanmálstexti

Þetta er stórt samfélagslegt úrlausnarefni og megin markmiðið er jafnræðið og svo að ákveða hversu mikið opinbert fé er hægt að setja í málaflokkin árlega