Yfirlit yfir fjölda félaga í trú- og lífssskoðunarfélögum 2015

Tafla:

úrvinnsla talna*

(+) "Samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987 skilar ríkissjóður ákveðnum hluta tekjuskatts til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga. Þessi fjárhæð nefnist sóknargjald og er það ákvarðað sem tiltekin upphæð ár hvert fyrir hvern mann sem er orðinn 16 ára 31. desember árið áður en gjaldár hefst. Þegar gjaldinu er ráðstafað til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga er miðað við lögheimili og skráningu fólks í trúfélög 1. desember árið áður en gjaldár hefst. Gjaldið er greitt til safnaðar þeirra sem eru skráðir í þjóðkirkjuna til skráðs trúfélags einstaklinga sem eru ekki í þjóðkirkjunni. Gjald vegna einstaklinga sem standa utan trúfélaga eða eru í trúfélagi sem ekki hefur hlotið skráningu hefur verið afnumið." - Hagstofa Íslands


Nánari skoðun og umfjöllun

Þjóðkirkjan - evangelísk lútersk kirkja

Af öllum skráðum er hún með 73.8% félaga og er með jafnt kynjahlutfall enda það stór og gömul að kynjahlutfallið er hið sama og í þjóðfélaginu öllu.

Um 21% félaga hennar eru 15 ára og yngri sem kemur af því að skráning barna í hana var sjálfvirk fram til 2013 ef að móðir barns var í Þjóðkirkjunni, en frá 2014 þurfa báðir foreldrarnir að vera í henni til að skráningin sé sjálfvirk. Sama lagaregla gildir um öll félögin.


Utan trú- og lífsskoðunarfélaga og "Önnur trúfélög og ótilgreint"

Þetta er ekki félag, heldur safn allra þeirra sem viljandi hafa skráð sig úr einhverju af félögunum. Þessi hópur er 5.6% allra og er því þriðji stærsti hópurinn. Mikil fjölgun hefur orðið í þessum hópi ásamt "Önnur trúfélög og ótilgreint" sem er næst stærsti hópurinn á eftir Þjóðkirkjunni, það er 7.1%. Sá hópur kemur til vegna fólks sem flytur til landsins og hefur ekki skráð sig neins staðar; vilji þeirra er óþekktur eða að einhver lítill hluti þeirra tilheyrir félagi sem er ekki skráð á Íslandi.


Kaþólska kirkjan

Rómversk-kaþólska kirkjan á Íslandi hefur stækkað mikið síðustu 15 árin (3.6% allra) og er líklegast að það sé vegna talsverðs innflutnings kaþólskra Pólverja hingað en þeir eru stærsti hópur innflytjenda hingað. Kaþólska kirkjan hefur átt við hneykslismál að stríða bæði erlendis og hérlendis vegna ásakana um kynferðisafbrot sumra fulltrúa hennar. Það hefur vart orðið til þess að Íslendingar laðist að henni.


Fríkirkjurnar og Óháði söfnuðurinn

Þessir þrír söfnuðir hafa vaxið talsvert síðusta áratug og hafa ónægðir kristnir úr Þjóðkirkjunni flutt sig yfir til þeirra í endurteknum hneykslismálum sem hafa þjað hana. Ásakanir um kynferðislega áreitni fyrrum biskups (ÓPS), klúður eftirmanns hans í meðhöndlun þess máls, andstaða við að taka hjónabandi samkynhneigðra opnum örmum og fleira hefur allt orðið til þess að óánægðir kristnir hafa leitað til þessara frjálslyndari og umburðarlyndari kristinna kirkna. Fríkirkjan í Reykjavík var talsvert áberandi um tíma því að það virtist vera að hún vildi aðskilnað ríkis og kirkju, en svo kom í ljós að hún vildi bara sjálf verða að þjóðkirkju með Þjóðkirkjunni (sjá forsíðu).

Fríkirkjan í Reykjavík er með 2.9% allra, Fríkirkjan í Hafnarfirði með 1.95% og Óháði söfnuðurinn 1.02% - samtals 5.87% allra.

Það er frekar hátt hlutfall barna 15 ára og yngri í þeim (21-26%) en kristnir söfnuðir hafa almennt ekki sett sig á móti skráningu barna í þau enda markar skírn bæði nafngjöf og trúarjátningu með inngöngu í söfnuðinn þó að barnið sé ómálga. Ferming 13 ára barna er svo "staðfesting" á trúnni þó að enn séu börn á þeim aldri ekki farin að móta sér flóknar lífsskoðanir og fylgi almennt foreldrum sínum.


Ásatrúarfélagið

Hin forna norræna trú sem rómversk kristni beygði undir sig með valdi og hótunum í kringum árið 1000, risin upp á ný í mildu formi. Margir Íslendingar finna sig í því að lifa í minni víkinganna og þetta trúfélag hefur verið laust við öfga og bókstafstrú. Ásatrúin heldur í heiðri vináttuna og mörg fögur gildi. Undanfarinn áratug hafa margir sem fundu sig ekki í kristninni skráð sig í Ásatrúarfélagið og er það því orðið 6. stærsta félagið (8. stærsti hópurinn) með 0.81% allra. Ásatrúarfélagið virðir rétt barna til að vera utan félag og hefur ekki hvatt félaga sína sérstaklega til að skrá börn sín. Hlutfall 16 ára og eldri er því með því hæsta hjá þeim eða 89%. (Aðeins 11% eru 15 ára eða yngri)

Athygli vekur að aðeins 34% félaga í Ásatrúarfélaginu eru konur. Einhverra hluta vegna virðist félagið síður laða að konur en karla. Kannski höfðar hin stríðshneigða ímynd víkinganna ekki eins til kvenna eða eitthvað í starfsemi félagsins sem laðar frekar karla að því?


Hvítasunnukirkjan á Íslandi

Þessi kristna kirkja (e. pentecostalism) er grein úr evangelísk-lúterskri trú (frá byrjun 20. aldar) sem leggur sérstaka áherslu á beint persónulegt samband við guð gegnum skírn af hinum heilaga anda. Hvítasunnukirkjan á sér nokkuð langa sögu hér en hefur vaxið mest af þeim söfnuðum sem jafnan voru kallaðir "sértrúarsöfnuðir" hér áður. Mikið tónlistarlíf hefur eflaust á þar drjúgan þátt. Hún inniheldur 0.64% allra skráðra félaga. Kynjahlutfall er jafnt og hlutfall barna er 21% líkt og hjá Þjóðkirkjunni.


Búddistafélag Íslands

Þetta er mun fjölmennara félaga (1022, 0.31%) en hitt félag búddista hérlendis, SGI á Íslandi (172, 0.05%), vegna þess að í þetta félag hafa asískir innflytjendur af búddískri trú safnast saman í. Þó að félögin hafi fólk af ólíkum uppruna er það sammerkt með þeim báðum að konur eru 61-63% félagsmanna. Í búddisma er ríkur friðarboðskapur og áhersla á íhugun og ró hugans. Þessi hæglátu og hógværu trúarbrögð virðast því laða konur að í meira mæli en karla. Hlutfall barna 15 ára og yngri er um 21% hjá Búddistafélagi Íslands en aðeins 16% hjá SGI á Íslandi, en í hinu síðar nefnda er meðvitund um að börn eigi rétt á að vera utan félaga.


Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi

Siðmennt er eina veraldlega lífsskoðunarfélagið sem er skráð, en með lagaviðbót árið 2013 var lífsskoðunarfélögum gert kleift að skrá sig og um leið þess krafist af öllum trú- og lífsskoðunarfélögum að þau viðhefðu einhverjar tímamótaathafnir í lífi fólks eins og nafngjafir (skírnir), giftingar og útfarir. Siðmennt er með þessar athafnir og borgaralegar fermingar að auki, sem eru nú með um 7% allra barna hvers árgangs og fer vaxandi. Ferming Siðmenntar er ekki "staðfesting á trú" líkt og evangelísk-lútersku kirkjurnar eru með, heldur "styrking" (ein af sjö merkingum orðsins confirmation) ungmennisins til að verða ábyrgur borgari og siðferðilega hugsandi manneskja. Einnig er borgaraleg ferming Siðmenntar sérstök að því leyti að hún krefst ekki inngöngu í félagið og engar játningar á veraldlegri lífsskoðun fer þar fram, enda sækja börn foreldra af bæði trúuðum og trúlausum bakgrunni í fermingu félagsins.

Siðmennt er í miklum vexti enda höfðar húmanísk lífssýn til margra trúlausra í landinu og barátta félagsins fyrir mannréttindum hefur verið áberandi. Í Siðmennt eru 1020 félagar eða 0.31% og þar af eru aðeins 6% börn 15 ára og yngri, enda leggur félagið áherslu á það að börn séu ekki skráð í trú- eða lífsskoðunarfélög vegna réttar þeirra til að ákveða sjálf um slíkt þegar þau hafa náð sjálfræði til. Kynjahlutfall er nær jafnt. Líklegt er að Siðmennt nálgist Ásatrúarfélagið og Hvítasunnukirkjuna að félagatölu á næstu árum. Félagið vill að jafnræði ríki og fer því fram á aðskilnað þjóðkirkjunnar frá ríkinu, ásamt því að sóknargjaldskerfið verði fellt niður.


Sæti 10-14: Nokkur ólík kristin trúfélög

Þarna sitja Aðventistar, Vottar Jehóva, Vegurinn, Rússneska rétttrúnaðarkirkjan (ROC) og Krossinn. ROC er afar kvenlæg, með 61% skráðra félaga sinna konur, en ég veit ekki hverju það sætir. Rússar urðu mikið til trúlausir undir harðstjórn kommúnismans og ef til vill hafa konur í meira mæli en karlar snúið aftur til ROC í kjölfar nýfengins frjálsræðis í trúmálum þar. Mér fróðari menn geta eflaust svarað þessu. Aftur Krossinn er afar karllægur, með aðeins 42% meðlima sinna konur. Kannski er það arfleifð "Gunnars í Krossinum" eða afleiðing bókstafstrúar þar sem konur njóta ekki sama réttar og karlar? Öll þessi félög eru með um 20% félaga sinna 15 ára og yngri sem er svipað og hjá Þjóðkirkjunni.


Tveir söfnuðir múslima

Þessir söfnuðir, Félag múslima á Íslandi og Menningarsetur múslima á Íslandi, eru ólíkir og virðist sá síðar nefndi vera meira bókstafstrúar en sá fyrri, sem sést meira í fjölmiðlum. Nýlega kom þó í ljós að konur í Félagi múslima voru ekki ánægðar með það hlutskipti sitt að verða að vera í litlu bænaherbergi á meðan karlarnir fengu einir að vera í aðal bænaherberginu. Bæði félögin eru heldur karllæg með 46% og 41% af meðlimum sínum konur. Mig furðar það ekki en furðar reyndar að það hlutfall skuli ekki vera enn lægra. Hvaða kona vill vera annars flokks í félagi sínu? Það er hátt hlutfall barna 15 ára og yngri í báðum félögum eða 31% og 33% þannig að sóknargjöldin eru minni en heildar félagatalan gæti bent til. Íslömsk trú tekur ekki oft tillit til réttar barna til að vera óskráð og öll fjölskyldan er oftast sömu trúar. Ég veit ekki hvernig það er hjá Félagi múslima hér en víða í íslömskum ríkjum er trúleysi eða "óuppgert hugarástand" ekki valmöguleiki og því óhugsandi annað en að börn tilheyri trú foreldra sinna. Múslimar eru mjög fjölbreyttur hópur bæði hér og erlendis og er frjálsræði og umburðarlyndi gagnvart öðrum lífsskoðunum til staðar víða líkt og hjá ýmsu kristnu fólki.


Önnur trú - og lífsskoðunarfélög

Félög í 17. til 26. sæti töflunnar eru félög sem náðu 100 félugum eða fleiri árið 2015, skv. Hagstofu Íslands. Þetta eru allt kristnir söfnuðir nema Bahá'í samfélagið og Búddistasamtökin SGI á Íslandi. Þau félög sem eru ekki sýnd eru minni en samtals voru 45 trú- og lífsskoðunarfélög skráð. Tvö þeirra voru að því er virðist félagalaus þannig að e.t.v. eru þau að lognast út af.

Athygli mína vakti nýtt félag með 5 félaga skráða sem heitir Zuism. Það á vefsíðu þar sem því er lýst að það byggi á einum elstu trúarbrögðum heims, trú Súmera. Trúnni er lýst en tilgangur félagsins er samt sá að greiða félögum sínum andvirði sóknargjaldsins af frádregnum smá umsýslukostnaði og leggja svo trúfélagið niður þegar baráttumáli þess umm að leggja eigi niður sóknargjaldakerfið næst. Kröfuna um að trúfélag eigi að bjóða upp á athafnir afgreiðir félagið á þann máta að verðleggja nafngjafir og giftingar á kr. 100 milljónir króna þannig að í raun fari enginn að biðja forsvarsmann félagsins um þær. Það er því ljóst að Zuisminn er yfirhylming til að fá hlutdeild í kerfinu og fá sóknargjaldið milliliðalítið í hendur félaganna sjálfra (eða góðgerðarmála að þeirra eigin vali). Þar sem sóknargjaldakerfið er í raun ekki innheimtukerfi félagsgjalda heldur útgjald ríkisins til félaganna, þá eru félagar í Zuism ekki að fá pening sem þeim ber sem slíkur. Þeir fá þannig þó ráðstöfunarrétt yfir upphæð sem annars væri eyrnamerkt félagsaðild þeirra í trú- eða lífsskoðunarfélag, eða færi bara í önnur útgjöld ríkissjóðs, m.a. til Þjóðkirkjunnar (sóknargjöldum fólks "utan" félaga var fyrir 2009 úthlutað til HÍ en ekki lengur). Manni er spurn hvort að það sé móralskt rétt að láta þessa upphæð í annað en góðgerðarmál því að sjálftaka gjaldsins t.d. í þágu eigin neyslu væri í raun gagnstætt því markmiði og hugsjón að leggja niður íþyngjandi kerfi (sóknargjalda) á ríkið.


---


*Um úrvinnslu talna

Taflan er unnin úr töflu frá Hagstofu Íslands sem byggir á skráðum félögum 1. janúar 2015. Höfundur raðar félögunum eftir fjölda félaga í þeim, en í sumum tilvikum er fjöldi þeirra sem sem greiðsla sóknargjalda er miðuð við hærri eða lægri en félaga fyrir ofan eða neðan þannig að heildar fjöldinn segir ekki allt.

Höfundaréttur

Pælingar og túlkanir í texta hér að ofan endurspegla aðeins álit og vangaveltur höfundar. Vinsamlegast getið heimildar ef að texti vefsíðunnar er notaður annars staðar en heimilt er að vitna í hann án sérstaks leyfis frá höfundi.