Yfirlýsing fjögurra trú- og lífsskoðunarfélaga 17. janúar 2013

Félögin fjögur:

Ásatrúarfélagið

Siðmennt - félag siðrænna húmanista

Búddistasamtökin SGI á Íslandi og

Fjölskyldusamtök heimsfriðar og sameiningar

Félögin gáfu út neðangreinda yfirlýsingu með birtingu fjögurra dálka fræðsluauglýsingar í Fréttablaðinu um þetta réttlætismál. Hér að neðan fer textinn og myndirnar úr auglýsingunni:

Fjárhagslegt og lagalegt ójafnræði á Íslandi í meðferð ríkisins gagnvart trúfélögum og lífsskoðunarfélögum. Ekkert breyttist við hina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012. Með þjóðkirkjuskipan í lögum er enn mismunun og ójafnræði við lýði. Ranglæti verður aldrei að réttlæti með meirihlutaatkvæði. Þjóðkirkjan og öll önnur trúfélög fá sóknargjöld fyrir hvern meðlim 16 ára og eldri en veraldleg lífsskoðunarfélög fá ekkert*. Sóknargjaldið er 8.412,- kr. fyrir árið 2012. Þar með er þó sagan ekki öll sögð:

Ríkisframlög til trúfélaga í milljónum króna árið 2012
 Árið 2012  Þjóðkirkjan  Önnur trúfélög (38)  Utan trúfélaga og ótilgr.
 Sóknargjöld  1604  250  0
 Jöfnunr-, Kirkjumála- og kristnisjóðir  600  0  0
 Sérframlög til viðgerða á kirkjum  35  0  0
 Laun (138 prestar, 3 biskupar og biskupsstofa)  1405  0  0
 Samtals  3644  250  0
 Hlutfall ríkisframlaga (%)  93.6%  6.4%  0%
 Hlutfall meðlimafjölda (%)  76.8%  12.5%  10.7%

Óeðlilegur launasamningur evangelísk-lúthersku kirkjunnar við ríkið árið 1997

Talsmenn Þjóðkirkjunnar segja að launin séu greidd vegna samnings og því sé hún sjálfstæð kirkja. Það fær ekki staðist því launagreiðslur til Þjóðkirkjunnar um alla framtíð í skiptum fyrir jarðir hennar er ekki eðlilegur samningur. Allir Íslendingar eru í raun erfingjar hins kirkjusögulega arfs sem nær langt aftur fyrir tíma siðaskiptanna. Ef ríkið greiðir laun á þennan hátt er um ríkisstofnun að ræða en það getur ekki talist réttlætanlegt að eitt trúfélag sé að fullu ríkisrekið en önnur ekki. Víðast hvar í Vestrænum löndum standa trúfélög á eigin fótum því að þau tilheyra einkasviðinu. Með þjóðkirkju er verið að reka ríkistrú en það samræmist ekki jafnræði í lýðræðisríkjum. Þjóðkirkjan þjónar ekki öllum landsmönnum. Reglur hennar leyfa það ekki og fólk annarrar lífsskoðunar leitar sjaldnast eftir þjónustu hennar. Í raun er hún því ekki og verður aldrei þjóðkirkja.

Hvað kostar núverandi skipan mála okkur?

Reiknað tillegg hvers tekjuskattsgreiðanda er tæp 25 þús. kr. til málaflokksins en ekki 8.412 kr. sem svarar til eins sóknargjalds.

Ástæðan er sú að:

  1. Þjóðkirkjan fær rúmlega tvöfalt (x2.3) fé fyrir hvern meðlim 16 ára og eldri miðað við önnur félög#

  2. Aðeins um 2/3 hlutar Íslendinga greiða tekjuskatt og þeir greiða því fyrir sóknargjöld hins 1/3 hlutans

Grundvallarréttindi allra eru að njóta jafnræðis og sömu meðferðar af hálfu ríkisins.


---


*Útskýring - breytingar síðan

Þann 29. janúar 2013 voru samþykkt lög á Alþingi um skráningu lífsskoðunarfélaga til jafns við trúfélög. Siðmennt fékk svo skráningu í maí 2013 og hefur haft aðild að sóknargjaldakerfinu síðan

# Útreikningar

Heildarframlög ríkisins til Þjóðkirkjunnar deilt með fjölda 16 ára og eldri í henni. Tölur frá Hagstofu Íslands og Þjóðkirkjunni